Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 65/2014

Miðvikudaginn 28. maí 2014

65/2014

A

v/B

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Þuríður Árnadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 20. janúar 2014, kærir A, umönnunarmat Tryggingastofnunar ríkisins frá 12. desember 2013 vegna B.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að þann 12. desember 2013 gerði Tryggingastofnun ríkisins umönnunarmat vegna fóstursonar kæranda, B. Umönnun var metin til 3. flokks en kæranda var synjað um umönnunargreiðslur á þeim grundvelli að barn væri í fóstri og vistun væri greidd af félagsmálayfirvöldum.

Í kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga segir m.a. svo:

„Málavextir eru þeir að dóttursonur minn, B hefur að mestu leyti alist upp allt frá fæðingu á heimili mínu og sambýlimanns míns til margra ára, C.

Dóttir mín og móðir drengsins hefur átt við langvinn veikindi að ræða og hefur ekki haft burði til að annast hann. Í fyrstu eða allt til X ára aldurs höfum við C séð fyrir drengnum og annast hann eins og eigin son án þess að þiggja meðlög foreldra, framfærslugreiðslur sveitarfélagsins, eða fósturlaun sem kveðið er á um í lögum að vistforeldum séu greiddar til framfærslu barns.

Ástæða þess er einfaldlega sú, að við töldum okkur geta annast drenginn án þess að fá með honum greiðslur, enda var okkur ekki einu sinni kunnugt um að slíkt tíðkaðist enda var okkur mikilvægast að leggja okkur sem best fram við að ala drenginn upp við öryggi og festu og styðja hann við það sem hann tekur sér fyrir hendur og að byggja upp gott sjálfsmat og bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum .

Auk þess að kynna honum mikilvægi þess að mennta sig. Auk heilbrigðs gildismats, að vera sjálfum sér samkvæmur og heiðarlegur í hvívetna. Þannig myndi honum farnast vel í lífinu.

Fyrir rúmum þremur árum höfðaði faðir forræðismál gegn dóttur minni og móður drengsins sem var á hennar forræði en til heimilis hjá undirritaðri og maka. Bæði foreldrar fóru í svo kallað foreldrafærnismat og niðurstaða þess var að þá, að hvorugt væri talið fyllilega hæft til að annast barnið.

Dómur var kveðinn upp X og og var ósk föður hafnað en forræði móður staðfest með skilyrðum. Það er að segja að því tilskyldu að drengurinn yrði áfram í vistun á heimili undirritaðrar. Gerður var samningur við D um framfærslu og úrskurðaði Velferðarnefnd E á fundi sínum að greitt yrði með drengnum lágmarksmeðlag samkvæmt reglugerð; þrefalt meðlag frá D, auk meðlags frá föður.

Í X síðast liðinn greindist dóttursonur minn og fóstursonur með […]. Hann var lagður inn til sjúkrahúsvistar og dvaldi um það bil fimm daga á Barnadeild Hringsins og útskrifaður með þann úrskurð að um ólæknandi sjúkdóm væri að ræða sem gæti leitt til alvarlegra veikinda og jafnvel dauða ef sjúklingurinn sjálfur og fósturforeldrar sýndu ekki ábyrgð og gættu þess að farið væri að fyrirmælum í einu og öllu.

Það var undirritaðri og afa auk drengsins mikið áfall að fá þann úrskurð að um ólæknandi sjúkdóm væri að ræða. Við tókum þeirri ábyrgð okkar á lífi hans og umönnun mjög alvarlega. Sá tími sem fór í hönd eftir að sjúkrahúsvist lauk og heim var komið var erfiður. Ekki síst vegna óöryggis okkra allra og ótta um að við gerðum mistök og eða drengurinn tæki ekki fulla ábyrgð á sjúkdómnum, þegar hann dvaldi i skólanum eða utan heimilis.

Félagsráðgjafar á Barnadeildar Hringsins fræddu okkur um rétt okkar og drengsins um umönnunargreiðslur til foreldra og forráðamanna barna sem greindust með fyrrnefndan sjúkdóm og sóttu um fyrir okkar hönd um þær bætur.

Ég fylgdi umsókninni eftir og hafði samband við starfsmann Tryggingastofnunar Íslands sem hafði með málið að gera. Han taldi að við værum á mörkum þess að eiga rétt á greiðslunum þar sem fram kæmi í lögum um almannatryggingar að þeir sem þægju aðrar greiðslur utan almannatrygginga til framfærslu ættu ekki rétt á þessum greiðslum. Hann kvaðst eigi að síður myndi gera það sem í hans valdi stæði til að tala máli mínu og fór með umsóknina og lagði fyrir fund og mælti með jákvæðri afgreiðslu Þar fékk hann ekki þann hljómgrunn sem hann óskaði eftir frá þeim þremur samstarfsmönnum sem um umsóknina fjölluðu og var henni synjað.

Rökstuðningurinn fyrir synjuninni var byggð á reglugerð nr. 504/1997, en auk þess setur TR sér reglur til að vinna eftir og samkvæmt þeim vinnureglum er túlkun TR á efni umræddar reglugerðar, er að synja beri umsókn ef viðkomandi fær greitt hærri upphæð en sem nemur ígildi tvöfalds meðlags til framfærslu barns.

Greiðslur frá D sem undirrituð þiggur,er ígildi tveggja frá sveitarfélagini og meðlag föður.

En þrefalt meðlag með barn i fóstri þykir að mati Tryggingastofnunar Íslands of há greiðsla til að réttlætanlegt væri að fósturforeldrar fengu þær lögbundnu greiðslur sem aðrir foreldrar fá greiddar með börnum sínum og skipti þar ekki máli að við sem bæði erum komin yfir sextugt höfum ekki möguleika sem flestir foreldrar barna á unglingaldri hafa, að auka við tekjur sínar.

Rökstuðningurinn er óskiljanlegur og með ólíkindum að foreldrum annars vegar og fósturforeldrum hins vegar skuli mismunað, en til þess ber að líta að foreldrar X ára barna eru alla jafna með fulla starfsorku og í fullri vinnu.

Eins og fyrr segir eru undirrituð og maki annars vegar öryrki og hins vegar ellilífeyrisþegi og það segir sig sjálft að tekjur ungs fólks sem starfar fullan vinnudag eru í öngvu samræmi við greiddan örorkulífeyri og ellilífeyri.

Í mínum huga leikur ekki vafi á að fyrst og fremst er brotið á drengnum, því hann situr ekki við sama borð og önnur börn sem eru haldin eru sama sjúkdómi, aðeins vegna þess að hann er alinn upp og hjá afa sínum og ömmu sem hafa ekki þær tekjur sem þau áður höfðu þegar drengurinn var yngri.

Það var ekki hans val að eiga heimili hjá ömmu hans og afa frekar en það var okkar val að ala hann upp til fullorðinsára. En framtíðin er óskrifað blað, og vorum við þess ætíð fullviss að móðir hans myndi ná heilsu áður en við færum á eftirlaun.

En því miður fer hann á mis við að alast upp við það sem við köllum eðlileg skilyrði, eins og flest önnur börn hjá foreldrum og systkinum. Við sem áttum þess kost sem börn vitum hvers hann fer á mis, svo sem ýmsa einfalda en eðlilega viðburði sem fylgja fjölskyldum með fleiri en eitt barn á framfæri.

Við höfum því gert það sem í okkar valdi stendur til að bæta honum upp þau forréttindi að fá að alast upp hjá báðum foreldrum og eiga systkini að auki á svipuðum aldr. En hve mikið sem eg vildi, get ég ekki fært tímann til baka, þess vegna legg ég áherslu á að bæta honum það upp á annan hátt og ég efast ekki um að síðar meir á hann eftir að þakka uppeldið, en eftirsjáin verður eigi að síður sú sama eftir foreldrum og systkinum.

Undirrituð fór yfir lög um almannatryggingar, barnavernd, fóstur og reglugerðir og úrskurði sem kynnu að varða dótturson minn og uppeldi hans og kom auga á að í reglugerð um greiðslur vegna barna í fóstri nr. 858/2013 er ákvæði sem styður beiðni okkar um að úrskurðarnefnd almannatrygginga hafi forsendur til synjunar ákvörðunar Tryggingastofnunar Íslands.

Í 13. gr. reglugerðarinnar er skýrt ákvæði um að fósturforeldrar og fósturbarn eigi rétt á öllum almennum greiðslum samkvæmt lögum svo sem lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, leik-og grunnskóla, málefni fatlaðs fólks, almannatrygginga og sjúkratrygginga.“

Úrskurðarnefnd almannatrygginga óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi, dags. 14. febrúar 2014. Í greinargerðinni, dags. 7. mars 2014, segir m.a. svo:

1. Kæruefni

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um umönnunargreiðslur með B. Kærandi er fósturmóðir B.

2. Málavextir

Tryggingastofnun hefur gert tvö umönnunarmöt vegna drengsins. Annars vegar mat dags. 01.10.2007, 5. flokkur 0% frá 01.08.2007 til 31.07.2012. Hins vegar hið kærða mat dags. 12.12.2013, 3. flokkur 0% frá 01.11.2013 til 31.07.2016, þ.e. fósturmóður var synjað um umönnunargreiðslur þar sem ekki væri heimilt að greiða umönnunargreiðslur með börnum í vistun utan heimilis.

3. Lög og reglur

Kveðið er á um heimild til fjárhagslegrar aðstoðar við framfærendur fatlaðra og langveikra barna í 4. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007. Þar segir að Tryggingastofnun sé heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna, sem dveljast í heimahúsi eða á sjúkrahúsi. Nánar er fjallað um heimildir og skilyrði greiðslna í reglugerð nr. 504/1997 með síðari tíma breytingum.

Í lagaákvæðinu og í 1. gr. reglugerðarinnar er það gert að skilyrði fyrir fjárhagslegri aðstoð frá Tryggingastofnun að barn sé haldið sjúkdómi eða andlegri eða líkamlegri hömlun, og að sjúkdómur eða andleg eða líkamleg hömlun hafi í för með sér sannanleg tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu.

Í 2. mgr. 4. gr. laga um félagslega aðstoð segir að almenn leikskóla- og skólaþjónusta skerði ekki umönnunargreiðslur, en að önnur dagleg sértæk þjónusta og vistun utan heimilis, þar með talin umtalsverð skammtímavistun, skerði greiðslur.

Í 5. gr. reglugerðar nr. 504/1997 er lagaákvæðið nánar útfært. Þar segir í 4. mgr. að umönnunargreiðslur til framfærenda falli niður við vistun á vistheimili eða vistun greidda af félagsmálayfirvöldum.

4. Niðurstaða

Almennt er litið svo á að venjulegur framfærslukostnaður barns sé fjárhæð sem svarar til tvöfalds barnalífeyris, þ.e. einfalds frá hvoru foreldri. Tryggingastofnun telur að sem meginreglu skuli líta á fósturráðstöfun, þar sem greiðslur til fósturforeldra með barni eru umfram venjulegan framfærslukostnað, sem vistun greidda af félagsmálayfirvöldum í skilningi ofangreinds reglugerðarákvæðis. Umönnunargreiðslum er ætlað að mæta sannanlegum tilfinnanlegum útgjöldum og kostnaði við sérstaka umönnun eða gæslu barna, sbr. 4. gr. laga nr. 99/2007. Þessum útgjöldum má, eðli málsins samkvæmt, ekki vera mætt af öðrum aðilum samtímis því að umönnunargreiðslur eiga sér stað.

Í málinu liggja fyrir upplýsingar um að kærandi fái greitt sem samsvarar þreföldum barnalífeyri með B. Greiðsla D nemur tvöföldum barnalífeyri og síðan kemur greiðsla í formi meðlags frá föður. Auk þess greiðir D fyrir tómstundir og sálfræðiþjónustu drengsins. Með vísan til framanritaðs lítur Tryggingastofnun svo á að vistun B sé greidd af félagsmálayfirvöldum og að kostnaði við umönnun sé mætt. Af þeim sökum telur Tryggingastofnun ekki vera heimild til að greiða fósturmóður hans umönnunargreiðslur. Benda má á að Úrskurðarnefnd almannatrygginga komst að sömu niðurstöðu í máli nr. 306/2010.

Hvað varðar tilvísun kæranda til 13. gr. reglugerðar nr. 858/2013 þá telur Tryggingastofnun að lög um félagslega aðstoð nr. 99/2007 og reglugerð nr. 504/1997, byggð á þeim lögum, séu sérlög og reglugerð, sem gangi framar almennu reglugerðarákvæði eins og þessu.“

Greinargerðin var send kæranda með bréfi, dags. 17. mars 2014, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt barst ekki.

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar umönnunarmat Tryggingastofnunar ríkisins frá 12. desember 2013 vegna fóstursonar kæranda.

Í rökstuðningi fyrir kæru greinir kærandi frá því að dóttursonur hennar hafi að mestu leyti alist upp allt frá fæðingu á heimili hennar og sambýlismanns hennar. Fyrir rúmum þremur árum hafi faðir drengsins höfðað forræðismál gegn dóttur hennar. Með dómi sem kveðinn hafi verið upp árið X hafi ósk föður verið hafnað en forræði móður staðfest með þeim skilyrðum að drengurinn yrði áfram í vistun á heimili kæranda. Tryggingastofnun þyki þrefalt meðlag með barni í fóstri of há greiðsla til að réttlætanlegt sé að fósturforeldrar fái þær lögbundnu greiðslur sem aðrir foreldrar fái greiddar með börnum sínum. Rökstuðningurinn sé óskiljanlegur og með ólíkindum að foreldrum annars vegar og fósturforeldrum hins vegar skuli mismunað.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins er greint frá því að stofnunin telji að sem meginreglu skuli líta á fósturráðstöfun, þar sem greiðslur til fósturforeldra með barni séu umfram venjulegan framfærslukostnað, sem vistun greidda af félagsmálayfirvöldum. Umönnunargreiðslum sé ætlað að mæta sannanlegum tilfinnanlegum útgjöldum og kostnaði við sérstaka umönnun eða gæslu barna. Þessum útgjöldum megi eðli málsins samkvæmt ekki vera mætt af öðrum aðilum samtímis því að umönnunargreiðslur eigi sér stað. Í málinu liggi fyrir upplýsingar um að kærandi fái greitt sem samsvari þreföldum barnalífeyri með drengnum og auk þess greiði D fyrir tómstundir og sálfræðiþjónustu hans. Með vísan til þess líti stofnunin svo á að vistun drengsins sé greidd af félagsmálayfirvöldum og að kostnaði við umönnun sé mætt.

Ákvæði um umönnunargreiðslur er í 4. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Ákvæðið hljóðar svo:

„Tryggingastofnun er heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna, sem dveljast í heimahúsi eða á sjúkrahúsi, allt að 96.978 kr. á mánuði og/eða taka aukinn þátt í greiðslu sjúkrakostnaðar ef andleg eða líkamleg hömlun barns hefur í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu. Heimilt er að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda barna með alvarleg þroskafrávik, sem jafna má við fötlun, og barna með alvarleg hegðunarvandamál sem jafna má við geðræna sjúkdóma. Þegar sérstaklega stendur á er heimilt að hækka umönnunargreiðslur um allt að 25%.

Almenn leikskóla- og skólaþjónusta skerðir ekki umönnunargreiðslur. Önnur dagleg, sértæk þjónusta og vistun utan heimilis, þar með talin umtalsverð skammtímavistun, skerðir umönnunargreiðslur.

Tryggingastofnun ríkisins metur þörf samkvæmt ákvæði þessu.

Ráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar.“

Með framangreindri lagastoð er gildandi reglugerð um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna nr. 504/1997, með síðari breytingum. Samkvæmt 5. málsl. 4. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar falla umönnunargreiðslur til framfærenda niður við vistun á vistheimili eða vistun greidda af félagsmálayfirvöldum.

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi fái greitt sem samsvarar þreföldum barnalífeyri með fóstursyni sínum í formi greiðslna frá D og meðlags frá föður drengsins. Auk þess er greitt fyrir tómstundir drengsins og sálfræðiþjónustu af D. Hefðbundinn framfærslueyrir með barni samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar er tvöfaldur barnalífeyrir, sbr. t.d. 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. laganna þar sem fram kemur að þegar báðir foreldrar séu látnir eða örorkulífeyrisþegar skuli greiddur tvöfaldur barnalífeyrir. Úrskurðarnefndin telur því að kærandi fái greitt umfram hefðbundinn framfærslueyri með fóstursyni sínum. Vistunin telst því greidd af félagsmálayfirvöldum, sbr. 5. málsl. 4. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 504/1997, að mati nefndarinnar. Ákvæði 13. gr. reglugerðar nr. 858/2013 sem kærandi vísar til gengur ekki framar ákvæði 4. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 504/1997 enda er það almennt orðað og 4. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 504/1997 hefur lagastoð í 4. gr. laga um félagslega aðstoð, sbr. 2. og 4. mgr. ákvæðisins.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki sé unnt að verða við beiðni kæranda um umönnunargreiðslur. Staðfest er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun um umönnunargreiðslur samkvæmt umönnunarmati frá 12. desember 2013.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Staðfest er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um umönnunargreiðslur vegna B.

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson, formaður


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum